Viktor Orbán: „Glóbalistarnir geta farið til fj……!“

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hækkaði róminn gegn glóbalistunum í ræðu á ársfundi CPAC í Texas í gær. M.a. sagði hann, að þeir gætu „farið til fjandans.“ Að sögn Orbán er kominn tími til, að íhaldsöfl alls staðar í heiminum sameinist og skilji, að það sem er að gerast í hinum vestræna heimi er ekki einungis stjórnmálabarátta heldur „menningarstríð“ (mynd © Alan Santos/PR CC 2.0).

Vesturlönd eru í stríði gegn sjálfum sér

Það er farið að hitna í hinum vestræna heimi. Fleiri og fleiri eru farnir að spyrja, hvað sé að gerast og hvers vegna það er að gerast.

Viktor Orbán, leiðtogi Ungverjalands, hækkaði tóninn enn frekar í ræðu á árlegri ráðstefnu íhaldsmanna í Bandaríkjunum, CPAC.

„Vesturlönd eru í stríði við sig sjálf. Við höfum séð hvaða framtíð valdastétt glóbalistanna hefur upp á að bjóða. En við höfum aðra framtíð í huga. Allir glóbalistar geta farið til fjandans, ég er kominn til Texas!“

Að sögn Orbáns stendur þjóð hans ein uppi í Vestur-Evrópu, sem hefur farið algjörlega út af sporinu.

„Ungverjaland er gömul og stolt þjóð en á stærð við Davíð, sem stendur einn gegn rétttrúnaðar-Golíati glóbalismans.“

Ungverjar hafa þurft að berjast bæði við kommúnista og frjálslynda

– „Hryllingur nasismans og kommúnismans gat gerst, vegna þess að sum Evrópuríki yfirgáfu kristin gildi sín. Og frjálshyggjumenn ætla að gera slíkt hið sama í dag. Þeir vilja varpa vestrænum gildum fyrir róða og skapa nýjan vestrænan heim rétttrúnaða.“

„Ef einhver efast um að framsæknir frjálslyndir og kommúnistar séu það sama, spyrjið þá okkur Ungverja. Við börðumst við þá báða og ég get fullvissað ykkur um það, að þeir eru sami hluturinn. Þess vegna þurftum við að sigra þá aftur. Og síðan 2010 höldum við áfram að sigra, sigra og sigra. Svo marga sigra að við klórum okkur í höfðinu. Að sigra er orðin daglegur vani okkar. En á sama tíma þekkjum við hið fornkveðna: sigrar gærdagsins vinna ekki leiki dagsins. Ég hef verið þingmaður í 32 ár, var 16 ár í stjórnarandstöðu og 16 ár sem forsætisráðherra. Ég hef lært að sá sem gefst upp sigrar aldrei og sá sem er siguvegari gefst aldrei upp. Þetta er leyndarmálið á bak við sigra okkar. Þú verður að standa með landinu þínu í góðæri og á slæmum tímum.“

Stjórn Obama reyndi að þvinga Ungverjaland til að fjarlægja kristin og þjóðleg gildi

„Stjórn Obama reyndi að þvinga okkur til að breyta lögum Ungverjalands og fjarlægja kristin og þjóðleg gildi. Trúir þið því? Forystuaflið í hinum frjálsa heimi reyndi að fá okkur til að breyta stjórnarskrá okkar til samræmis við stefnuskrá glóbalista. Svo furðulegt! Þetta kom okkur á óvart. En við stóðumst gegn þessu með góðum árangri. Eftir það erum við ekki beinlínis í uppáhaldi hjá demókrötum. Þeir vildu ekki, að ég kæmi hingað og gerðu allt til að reka fleyg á milli okkar. Þeir hata og rægja mig og land mitt, á sama hátt og þeir hata og rægja ykkur og Bandaríkin, sem þið standið fyrir.“

– „Við vitum öll hvernig þetta virkar. Róttækir frjálshyggjumenn vilja ekki hafa mig hér, vegna þess að þeir vita hvað ég ætla að segja ykkur. Ég er hér til að segja ykkur, að við verðum að sameina krafta okkar. Við Ungverjar kunnum að sigra andstæðinga frelsisins á vettvangi stórnmálanna!“

Krefst meira en en venjulegrar stjórnmálabaráttu

„Stjórnmálin duga ekki ein og sér, þetta er menningarstríð. Við verðum að blása nýju lífi í kirkjurnar okkar, fjölskyldurnar okkar, háskólana okkar og stofnanir samfélagsins.“

Viktor Orbán réðst líka á vinstri-frjálshyggju milljarðamæringinn George Soros, sem hann telur að sé að reyna að eyðileggja Ungverjaland og hinn vestræna heim.

„Ég þekki George Soros vel. Hann er andstæðingur minn. Hann trúir ekki á neitt af því sem við stöndum fyrir. Hann hefur heilan her í þjónustu sinni: peninga, frjáls félagasamtök, háskóla, rannsóknastofnanir og helminginn af skrifræðinu í Brussel. Hann notar þennan her til að þröngva vilja sínum upp á andstæðinga sína, þar á meðal Ungverja, í þeirri trú að þau gildi sem okkur þykir vænt um hafi leitt til hryllings 20. aldarinnar. En það er bara hið gagnstæða, gildi okkar hafa bjargað okkur frá því að endurtaka mistök sögunnar.“

Þjóðaratkvæðagreiðsla um ólöglega innflytjendur og þjóðin sagði skýrt nei

„Við vorum fyrsta landið í Evrópu, sem sagði nei við ólöglegum innflytjendum og stöðvuðum þá innrás. Þetta var nauðsynlegt til að vernda þjóð okkar. Við ákváðum að spyrja fólkið, hvort það vildi ólöglegan innflutning eða ekki. Við héldum þjóðaratkvæðagreiðslu. Ungverjar tóku skýrt fram, að þeir vildu ekki innflytjendur. Þannig að ungverska þjóðin vill ekki fara eftir reglum hinna róttæku. Ungverjar höfnuðu þeirri röngu fullyrðingu að ekki væri hægt að stöðva innflytjendur og neyddu okkur leiðtogana til að bregðast við. Og við stöðvuðum innflutninginn.“

Látið börnin okkar í friði – punktur!

„Í Ungverjalandi neyddumst við til að reisa – ekki aðeins líkamlegan múr við landamæri okkar og fjármálavegg utan um fjölskyldur okkar, heldur lagalegan vegg í kringum börnin okkar til að vernda þau gegn kynjahugmyndafræðinni. Við skulum hafa það á hreinu: Þeir telja að foreldrar eigi að fylgja róttæka kynjaboðskapnum um hvernig foreldrar eigi að vera. Ríkið þvingar þann sem neitar. Við Ungverjar þekkjum þessa kommúnistabrellu og höfnum henni.

Viktor Orbán talaði einnig um stríðið í Úkraínu. Að sögn ungverska leiðtogans er aðeins ein leið fram á við: Friðarviðræður. En til þess þarf raunverulega, sterka leiðtoga:

„Stefna glóbalískra leiðtoga framlengir aðeins stríðið og dregur úr möguleikum friðar. Án viðræðna Bandaríkjamanna og Rússa verður aldrei friður í Úkraínu. Sífellt fleiri munu deyja og þjást og hagkerfi okkar fara á barm hruns. Aðeins sterkir leiðtogar geta samið um frið. Okkur, sem erum í nágrenni Úkraínu, vantar sárlega sterka leiðtoga, sem eru færir um að semja friðarsamning. SOS – SOS! Vinsamlegast hjálpið okkur! Við þurfum sterk Bandaríki með sterkan leiðtoga.“

Sjá nánar hér

Deila