Viljayfirlýsing um vitundarvakningu um mikilvægi íslenskunnar undirrituð

Frá undirrituninni.

Viljayfirlýsing um vitundarvakningu um mikilvægi íslensks máls var undirrituð af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúum Kennarasambands Íslands, Háskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og samtakanna Heimilis og skóla í gær. Lögð verður áhersla á að finna víðtækan samstarfsgrundvöll til að vekja athygli og áhuga á íslenskunni, stuðla að virkri notkun tungumálsins og vinna að jákvæðara viðhorfi, ekki síst barna og unglinga, til íslenskrar tungu.

Fyrr í haust voru kynntar fjölþættar aðgerðir stjórnvalda er styrkja eiga stöðu íslenskrar tungu til framtíðar. Þær snerta ólíkar hliðar samfélagsins en miða að því að tryggja að íslensk tunga standi jafnfætis öðrum málum og sé notuð á öllum sviðum þjóðlífsins.
Við þurfum að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Til þess þurfum við að geta hugsað, starfað, leikið og skapað á íslensku. Við þurfum að geta verið fyndin, alvarleg, reið og sorgmædd á íslensku. Ég er bjartsýn af því að ég sé unga sem aldna nýta íslenska tungu í alls konar tilgangi, oft með nýjum og óvæntum hætti. Hins vegar er mikilvægt að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hlúa að þessu verðmæti sem við eigum öll saman,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Samstarf sem þetta er mikilvægt til þess að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna því við viljum að hún þróist og dafni til framtíðar. Það bendir ýmislegt til þess að viðhorf barna og ungmenna til íslensku sé að breytast og því er mikilvægt að gefa gaum. Aðgerðir okkar til að styðja útgáfu bóka á íslensku, máltækniverkefnið og aukin áhersla á íslenskukennslu í menntakerfinu eru dæmi um þau stóru skref sem við stígum nú á þeirri vegferð. Íslenskan er og verður aðalmálið,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Undirritun yfirlýsingarinnar fór fram á árlegu málþingi Kennarasambands Íslands í tilefni af alþjóðadegi kennara. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Íslenska er stórmál

Kennarasamband Íslands, forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Háskóli Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli staðfesta vilja til að standa að vitundarvakningu um mikilvægi íslensks máls. Ofangreindir aðilar munu leggja sig fram við að finna víðtækan samstarfsgrundvöll til að vekja athygli og áhuga á móðurmálinu, stuðla að virkri notkun þess og vinna sérstaklega að jákvæðara viðhorfi barna og unglinga til íslenskrar tungu. Íslenskan stendur á tímamótum og mikilvægt er að tryggja að íslensk tunga standi jafnfætis öðrum málum og sé notuð á öllum sviðum þjóðlífsins. Á það bæði við um daglegt líf og sérhæfðari samskipti.“

Athugasemdir

athugasemdir

Deila