Vill auka arðsemi af rekstri Kópavogsbæjar og nota féð til uppbyggingar og viðhalds

Rekstur Kópavogs er með ágætum en þó má alltaf gera svo til verði fé til þess að mæta þörfum fyrir meiri uppbyggingu og viðhaldi eigna bæjarins, til þess þarf að skoða hvar sé hægt að gera enn betur í rekstrinum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Orra Hlöðverssonar oddvita Framsóknarflokksins í Kópavogi í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Vill endurfjármagna skuldir bæjarins

Orri segir að hingað til hafi bærinn verið nokkurn vegin verið rekinn rétt yfir núlli og því hafi ekki verið mikið fé til þess að setja í ýmis konar viðhald. Því vill Orri breyta og fara ofan í skuldir bæjarins sem hann segir að megi endurfjármagna og þannig greiða mögulega lægri vexti og með þeirri leið verði hægt að setja meira fjármagn til framkvæmda. Mikið sé í húfi eins og dæmin hafa sannað því sé viðhaldi ekki sinnt geti það kostað mun meira heldur en viðhald hefði kostað.

Kópavogur heimahagar stórra fyrirtækja

Atvinnulíf hefur tekið stórt stökk undanfarin áratug í Kópavogi og virðist lítið lát á þeirri þróun að fyrirtæki sæki mikið í að vera í Kópavogi. Hann segir að þakka megi framsýni Sigurðar Geirdal og Gunnars Birgissonar að bæjarfélagið hafi náð að vaxa og dafna sem raun ber vitni, þeir hafi lesið vel í kortin og þróunin orðið nákvæmlega sú sem þeir hafi sagt að hún yrði.

„hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að fyrirtæki eins og Íslandsbanki yrði með höfuðstöðvar sínar í Kópavogi“segir Orri.

Þétting byggðar á að vera í sátt við íbúa

Hann segist jafnframt vel geta hugsað sér að lækka fasteignaskatta á fyrirtæki í bænum og þannig efla enn frekari uppbyggingu atvinnulífs í bænum.

Hvað uppbygginguna í Kópavogi varðar þá bendir Orri á að nýtt byggingarland í Kópavogi sé nánast uppurið og því verði að fara í þéttingu byggðar eins og í mörgum öðrum bæjarfélögum, það þurfi hins vegar að gerast í sátt við íbúana. Hann segir að eðli málsins samkvæmt hafi þeir sem búi næst þéttingarreitum mestar skoðanir á þéttingu byggðar og það verði einfaldlega að hlusta á sjónarmið þess hóps og mæta þeim á miðri leið og finna leiðir sem allir geti sætt sig á. Hann segir að það sé hans mat að flestir séu nokkuð sáttir við þréttingu byggðar en málið snúist fyrst og fremst um útfærslur.

Borgarlínan veldur íbúum á Kársnesi áhyggjum

Þá segir Orri að það sé ákveðin gagnrýni sem hafi komið á framkvæmdir til dæmis á Kársnesi, þar sé óánægja meðal íbúa við framkvæmdir sem farið hafa þar fram undanfarin ár og skoða þurfi hvers vegna íbúar séu ósáttir. Hann segist þó vita að Borgarlínan sé ákveðið áhyggjuefni íbúa svæðisins og telja margir að hún muni raska friði og ró í hverfinu. Orri segir að hann hafi trú á að þetta vandamál megi leysa í góðri sátt við íbúana enda sé Borgarlínan á frumstigi og vel hægt að finna leiðir sem allir geta sæst á.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila