Vinnumarkaðsmál og húsnæðismálin stærstu viðfangsefni Þjóðhagsráðs um þessar mundir

Þjóðhagsráð hefur það sem af er ári fundað níu sinnum. Fyrir utan reglubundin viðfangsefni ráðsins hefur megináhersla fundanna varðað viðfangsefni sem tengjast áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði, árangri lífskjarasamninga og þætti sem geta stuðlað að því að verja kaupmátt og lífskjör í landinu en kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru flestir lausir í nóvember á þessu ári og á opinberum markaði í mars 2023.

Þjóðhagsráð tók til starfa í breyttri mynd í kjölfar lífskjarasamninganna árið 2019 en þar koma saman fulltrúar ríkisstjórnar, sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðar. Markmið ráðsins er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál. Þjóðhagsráð ræðir reglulega stöðu efnahags- og félagsmála í samhengi opinberra fjármála, peningastefnu og kjaramála í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Þá er í ráðinu rætt um aðgerðir stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga hverju sinni.

Eitt stærsta viðfangsefnið um þessar mundir eru húsnæðismál. Fyrir tilstuðlan ráðsins var sett af stað vinna um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, sem kynnt var opinberlega þann 19. maí sl. Þjóðhagsráð mun fylgja niðurstöðunum eftir en þegar hafa verið skipaðir tveir starfshópar á vegum innviðaráðherra um endurskoðun á húsnæðisstuðningi og endurskoðun húsaleigulaga til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Þá undirrituðu ríki og sveitarfélög nýverið rammasamning um uppbyggingu 35 þúsund íbúða á næstu tíu árum í samræmi við tillögurnar þar sem þessir aðilar sammælast í fyrsta sinn um stefnu og aðgerðir til að tryggja húsnæðisuppbyggingu í samræmi við þarfir allra hópa.  Samstaða er innan ráðsins um mikilvægi þess að tryggja aukið framboð íbúða til að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Þá hefur í ráðinu einnig m.a. verið fjallað um umbætur í kjaraviðræðum, afkomuöryggi atvinnuleitenda, öryrkja og barnafjölskyldna, eflingu sí- og endurmenntunar til að takast á við nýjar áskoranir á vinnumarkaði og jafnrétti- og starfsumhverfi á vinnumarkaði.

Í upphafi starfsársins var ákveðið að fela óháðum sérfræðingum að vinna greinargerð um stöðu og horfur á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga. Slíkri greiningu væri einkum ætlað að  lýsa þjóðhagslegu umhverfi samninganna, sérstaklega stöðu á vinnumarkaði og fjalla eftir atvikum um svigrúm til launahækkana á haustmánuðum. Til verksins voru fengin þau Katrín Ólafsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík og Arnór Sighvatsson, hagfræðingur. Greinargerðirnar voru til umræðu á fundi ráðsins þann 1. júní síðastliðinn og eru þær hér meðfylgjandi.

Í skýrslu sinni bendir Katrín mikilvægt sé að kaupmáttaraukning síðustu ára týnist ekki á næsta samningstímabili en takmarkað svigrúm til launahækkana kalli á að leitað sé annarra leiða til að bæta stöðu fólks á vinnumarkaði og huga þurfi að sértækum aðgerðum sem snúa ekki síst að þeim er verst standa. Arnór bendir á að launabreytingar þyrftu að taka mið af því að hinar óvenjulega hagstæðu ytri aðstæður sem stuðluðu að þjóðhagslegu jafnvægi á undanförnum árum séu ekki lengur fyrir hendi. Verði það gert megi binda vonir við að hægt verði að varðveita bæði ytra og innra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og verja kaupmátt þeirra kjarasamninga sem undirritaðir verða.

Tenglar á greinargerðirnar:

Skýrsla um efnahagsmál og vinnumarkað.

Hugleiðing um hagkerfið, hagstjórnina og vinnumarkaðinn.

Deila