Vísindamálaráðherrar Evrópu funduðu um lýðvísindi

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tók þátt í veffundi vísindamálaráðherra Evrópusambandsins og EES-EFTA ríkjanna í gær. Á fundinum skiptust ráðherrarnir á skoðunum um hvernig nýta megi rannsóknir og nýsköpun til að efla viðnámsþrótt á tímum efnahagslegra áskorana. Ráðherrarnir voru sammála um að rannsóknir og nýsköpun gegna lykilhlutverki í uppbyggingu samfélaga á umbreytingatímum.

Í ávarpi sínu lagði Lilja sérstaka áherslu á miðlun vís­inda­ og þátttöku al­menn­ings í vís­inda­starfi. Nefndi hún starfsemi Jöklarannsóknafélags Íslands sem dæmi um vel heppnað verkefni sem byggir á þátttöku almennings en sjálf­boðaliðar á veg­um fé­lags­ins hafa stundað mæl­ing­ar á hopi og framskriði jökla frá miðri síðustu öld, og þannig safnað mik­il­væg­um gögn­um um áhrif lofts­lags­breyt­inga á ís­lenska jökla um ára­tuga skeið.

Það er hlut­verk okk­ar sem störf­um á þess­um vett­vangi, hvort sem það er við stefnu­mót­un um vísinda­mál eða fram­kvæmd rann­sókna, að virkja og efla þekk­ingu al­menn­ings á vís­inda­starfi og hvetja til sam­tals milli vís­inda­manna og borg­ar­anna. Ekki síst skiptir máli að ná til ungs fólks.“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Þá talaði Lilja um viðbrögð og aðgerðir íslenskra stjórnvalda við COVID-19 heimsfaraldrinum og nefndi þar sérstaklega aukinn stuðning stjórnvalda við menntun, rannsóknir og nýsköpun.

Á fundinum var einnig farið yfir áherslur og aðgerðir ríkja Evrópusambandsins og EES-EFTA ríkjanna á sviðum rannsókna og nýsköpunar næstu misserin, sér í lagi framtíð evrópska rannsóknasvæðisins. Ráðherrarnir lögðu m.a. áherslu á mikilvægi náinna tengsla milli rannsókna og menntamála og skilvirkari stefnu í opinberri fjármögnun rannsókna og nýsköpunar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila