Yfir helmingur Svía segist ekki geta tjáð skoðanir sínar á frjálsan hátt

Ný könnun sýnir, að meira en helmingur Svía telur sig ekki geta tjáð skoðanir sínar frjálslega. Á sama tíma telur um einn af hverjum fimm, að aðrir eigi ekki að fá að tjá skoðanir, sem þeim sjálfum mislíkar. Sten Widmalm prófessor við Uppsala háskólann telur pólitískt umburðarleysi og sjálfsritskoðun vera stórt vandamál í Svíþjóð.

Brothætt lýðræði í Svíþjóð

Í nýrri könnun, sem gerð var í samvinnu SOM-stofnunarinnar í Gautaborg og Uppsala háskóla koma daprar staðreyndir í ljós varðandi umburðarleysi Svía í stjórnmálaumræðunni. Uppsalaprófessorinn Sten Widmalm einn af rannsakendum könnunarinnar segir:

„Það eru mikil vandamál með pólitískt umburðarleysi og sjálfsritskoðun í Svíþjóð.“

„Röngum“ skoðunum er í auknum mæli andmælt í heiminum, meðal annars á samfélagsmiðlum þar sem pólitísk ritskoðun í ýmsum myndum hvetur til andstöðu gegn „fölskum upplýsingum“. Í Svíþjóð er þróunin sérstaklega áberandi, samkvæmt nýrri könnun á vegum Uppsalaháskóla og SOM-stofnunarinnar í Gautaborg.

Thomas Persson, dósent og háskólakennari í stjórnmálafræðum, leiðir rannsóknarverkefnið „Hið opna samfélag“ ásamt Sten Widmalm, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Uppsölum, sem hefur gert mælingu á pólitísku umburðarlyndi í Svíþjóð. Þeir eru einnig ritstjórar nýs safnrits „Brothætt lýðræði“ sem fjallar um sama efni.

Sláandi niðurstöður um gríðarlegt umburðarleysi meðal Svía

Niðurstöðurnar sýna, að pólitískt umburðarleysi er ríkt í Svíþjóð, þar sem umtalsverður hluti þjóðarinnar telur, að „rangar“ skoðanir eigi ekki að fá að taka þátt í umræðu skv. hefðbundnum lýðræðislegum leikreglum. Þátttakendur í rannsókninni þurftu að velja hóp í samfélaginu, sem þeim mislíkaði við. Svíþjóðardemókratar urðu efstir (með 22,8 %), næstir komu andstæðingar bóluefna (17,4 %) og andstæðingar fóstureyðinga í þriðja sæti (16,8 %). Þriðji hver einstaklingur taldi að engir í þeim hópum, sem þeim mislíkaði við, ættu að fá að taka þátt í mótmælum, einn af hverjum fimm taldi að engir í þeim hópum, sem þeim mislíkaði við, ættu yfirleitt að fá að tjá skoðanir sínar. Allt að 64 % töldu að einstaklingur í hópi, sem þeim mislíkaði við, ætti ekki að fá að verða forsætisráðherra.

Þetta þýðir að yfir 30% Svía vilja banna réttindi einstaklinga að taka þátt í friðsömum mótmælum, ef þeir hafa ekki sömu skoðanir og þeir sjálfir. 20% Svía vilja banna málfrelsi þeirra, sem hafa aðrar skoðanir en þeir sjálfir. 64% Svía vilja afnema rétt einstaklinga til að bjóða sig fram til embættis forsætisráðherra, sem er af annarri skoðun en þeir hafa sjálfir. Gildir þetta fyrir þá hópa, sem fólk var beðið um að segja, að þeim mislíkaði við.

Fræðimennirnir benda á, að margir virðast einfaldlega eiga erfitt með að átta sig á því, um hvað lýðræðiskerfi byggt á stjórnarskrárvörðum réttindum snýst í raun og veru. Widmalm segir:

„Þá hefur maður ekki alveg skilið um hvað lýðræðið snýst. Við verðum að geta leyft ágreining án þess að afnema réttindi hvers annars, svo framarlega sem það snýst ekki um hóp sem vill leggja niður lýðræðið.“

Yfir helmingur Svía hræddur að tjá skoðanir sínar

Ennfremur sýndi könnunin fram á, að margir í Svíþjóð eru hræddir við að tjá skoðanir sínar opinberlega. Widmalm segir:

„Margt af þessu hefur aldrei verið rannsakað áður en núna vitum við, að það eru mikil vandamál með pólitískt umburðarleysi og sjálfsritskoðun í Svíþjóð.“

Þegar spurt var hversu vel staðhæfingin: „Í núverandi pólitíska andrúmslofti get ég ekki tjáð skoðanir mínar opinberlega vegna þess að öðrum gæti fundist þær móðgandi“ svaraði annar hver þáttakandi í könnuninni, að þeir væru sammála, sem Widmalm telur mjög háa tölu.

„Þetta þýðir að við höfum mjög strangan aga í skoðunum. Fólk er einfaldlega hrætt við að tala við ókunnuga um skoðanir sínar. Þetta geta verið erfið mál eins og innflytjendamál, aðlögun, skólamál og heilbrigðisþjónusta.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila