Eftir umfjöllun Sögu: Yutong flytur bækistöðvarnar á Íslandi „frá óperuhöll yfir í fundarherbergi”

Það þurfti opinbera umfjöllun útvarps Sögu um kínverska rútubílafyrirtækið Yutong til að fyrirtækið hætti að auglýsa á heimasíðu fyrirtækisins að forseti fyrirtækisins í Skandinavíu væri „utanríkisráðherra Íslands Össur Skarphéðinsson”. Núna hefur EX verið bætt við fyrir framan utanríkisráðherra sem gefur til kynna að um fyrrverandi utanríkisráðherra sé að ræða og löngu kominn á tíma. Þá er ekki lengur sagt að bækistöðvar Yutong séu í óperuhöllinni heldur í „fundarherbergi” og er hið leiðrétta heimilsfang í bókstaflegri merkingu:

 „Fundarherbergi í Hörpu á eyju.” Meðfylgjandi mynd af Hörpu gefur þá vísbendingu að um verulega myndarlegt fundarherbergi geti verið að ræða. Forstjóri Norður-Evrópu er sagður Benedikt G. Guðmundsson á Selfossi og ættu fáir Selfyssingar að hafa misst af þeirri gleði og gífurlegu lyftistöng fyrir bæjarlífið, að kínversku risafyrirtæki fyrir alla Norður-Evrópu sé stjórnað frá Selfossi.


Engar skýringar fylgja á „fundarherbergi í Hörpu” eins og t.d. nafn eða númer og ekki heldur neinn leiðavísir fyrir þá sem vilja koma í heimsókn svo viðkomandi þurfi ekki að leita í marga tíma á göngum Hörpu til að finna hugsanlegar dyr að umræddu fundarherbergi. Til þess að fá nánari upplýsingar um skrifstofuna, þarf að hringja í Yutong á Selfossi og þá þarf kannski viðkomandi starfsmaður að bruna í bæinn með skilti til að hengja á fundarherbergisdyr eða mæla sér mót við viðskiptavini fyrir utan Hörpu. Harpa er glæsileg bygging og eitt af auðkennum Reykjavíkurborgar og þess vegna auðvelt fyrir ferðamenn að ákveða að hittast þar hvort svo sem þeir koma frá Kína eða Selfossi. 


Annað gott auðkenni Reykjavíkur er Hallgrímskirkja og með Belti og brautarsamningum við djáknann getur kínverska risafyrirtækið fengið áheyrilega ímynd með því að láta hringja klukkum Hallgrímskirkju fyrir fundi með viðskiptavinum. Þann möguleika getur félagið haft til vara eða hreinlega flutt starfsemina úr fundarherberginu í Hörpu yfir í Hallgrímskirkjuturn ef viðskiptavinir félagsins skyldu tapa þræðinum á göngum Hörpu.

Klukkur Hallgrímskirkju hljóma hátt og heyrast víða og auðvelt fyrir sjóndapra að renna á hljóðið. Á mörgum vínbörum er bjöllu hringt í hvert sinn sem viðskiptavinir gefa þóknun og ef Yutong fylgir þeirri reglu má búast við klukkuhljómleikum vegna sölu rafmagnsvagna til Reykjavíkurborgar.

Bætist svo Borgarlínan við Belti og brautarsamninginn svo úr verður Belti, braut og borgarlínusamningur, þarf líklegast að panta fleiri og stærri klukkur frá Kína svo hægt verði að flytja kínverska klukkuóperu allan sólarhringinn í nokkur ár. Óperan fengi langtum víðtækari áhrif en influtt öskur kórónustreitukvalinna sem gætu þá komið til landsins til að njóta kínverskrar menningar í staðinn fyrir að hlýða á angistraópin í sjálfum sér.
Útvarp Saga mun fylgjast með málunum og gera þeim skil í framtíðinni.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila