Höfuðstöðvar Yutong Eurobus á Íslandi sagðar vera í Hörpu – Starfsmenn Hörpu kannast ekki við fyrirtækið

Yutong Eurobus Scandinavia, fyrirtæki sem Össurar Skarphéðinsson veitir forstöðu segist hafa aðalskrifstofu sína á heimilsfangi Hörpu, Austurbakka 2 í Reykjavík. (Myndin er samsett)

Útvarp Saga greindi frá því í síðustu viku að Yutong Eurobus fyrirtæki sem Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands veitir forstöðu í Svíþjóð sé skúffufyrirtæki án starfsemi og tæknilega gjaldþrota.

Á heimasíðu Yutong Eurobus er skrifstofa fyrirtækisins í Reykjavík sögð vera að Austurbakka 2 þar sem tónlistarhúsið Harpa stendur. Stór mynd af Hörpu með grænum rútum fyrir utan gefur til kynna að um höfuðstöðvar Yutong Eurobus á Íslandi sé að ræða. Íslenska símanúmerið sem gefið er upp er farsímanúmer Benedikts G. Guðmundssonar sem titlaður er eigandi og framkvæmdastjóri hjá gtgroup.is , sem er dótturfélag Yutong en Benedikt er einn stjórnarmanna Yutong Eurobus.

Þegar heimasíða GT Group er skoðuð má sjá að eina fréttin á heimasíðu GT Group segir frá heimsókn Wang Feng, aðstoðarforstjóra Yutong, ásamt Kjartani Ólafssyni fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Benedikt Guðmundssyni og Magnúsi Gíslasyni til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands í aðdraganda samninga við Strætisvagna Reykjavíkur.


Engin skrifstofa Yutong finnst í Hörpu 


Fréttamaður Útvarps Sögu fór á vettvang í Reykjavík í þeim tilgangi að heimsækja bækistöðvar Yutong Eurobus á Íslandi sem samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins og að sögn Dan Rasmussen varamanns í stjórn félagsins eiga að vera staðsettar í Hörpu . Eftir langa leit um rými, ganga og hæðir Hörpu og eftir samtal við starfsmenn tónlistarhússins varð ljóst að starfsstöðvar fyrirtækisins var þar ekki að finna. Sú staðreynd vekur upp spurningar hvers vegna fyrirtækið kynni út á við að skrifstofur þess séu í húsnæði tónlistarhússins Hörpu.

Það vakti athygli að þegar hringt var í Hörpu og rætt þar við starfsmann og hann spurður um fyrirtækið kannaðist starfsmaðurinn sem starfað hefur í Hörpu um árabil, ekki við að hafa heyrt nokkurn tíma um téð fyrirtæki en upplýsti að Össur Skarphéðinsson væri þar með skrifstofu, Össur er þó ekki sagður tengjast fyrirtækinu hér á landi heldur einungis skúffufyrirtækinu í Svíþjóð og því ekki ljóst hvaða starfsemi fer fram á skrifstofu Össurar.

Leiða má líkum að því að tilgangur Yutong Eurobus með þessari markaðskynningu á staðsetningu fyrirtækisins sé að blekkja væntanlega kaupendur í Evrópu og reyna að telja þeim trú um að raunveruleg starfsemi Yutong Eurobus sé fyrir hendi á Íslandi. Það sé framkvæmt þannig að með því að setja upp þá mynd af fyrirtækinu að það sé staðsett í Hörpu og gefi þannig væntanlegum viðskiptavinum trausta ímynd af Yutong Eurobus sem áreiðanlegum samstarfsaðila út um allan heim. Væntanlegir kaupendur eru á þann hátt blekktir um raunverulega stöðu fyrirtækisins.

Þegar skráning fyrirtækisins á Íslandi er skoðuð kemur í ljós að lögheimili Yutong Eurobus er að Fossnesi C á Selfossi. Þegar rakin eru tengsl fyrirtækisins við heimilisfangið sést að annað fyrirtæki, Art hostel sem er í eigu Bendikts Gísla Guðmundssonar stjórnarmanns í Yutong Eurobus er skráð á sama heimilisfang. Sú staðreynd rennir enn frekari stoðum undir að sú framsetning ,að fyrirtækið sé staðsett í Hörpu sé eingöngu til þess fallin að fegra ímynd Yutong Eurobus til þess að blekkja væntalega viðskiptavini.


Össur Skarphéðinsson „President of Yutong Eurobus Scandinavia” kynntur sem starfandi utanríkisráðherra Íslands

Staðsetning fyrirtækisins Yutong Eurobus í Hörpu virðast ekki vera einu blekkingarnar sem viðhafðar eru til þess að gefa fyrirtækinu trausta ímynd og til að hafa áhrif á væntanlega kaupendur sem ekki þekkja til Íslands því Össur Skarphéðinsson stjórnarmaður Yutong Eurobus og fyrrverandi utanríkisráðherra er á heimasíðu Yutong í Svíþjóð sagður ranglega vera enn starfandi utanríkisráðherra Íslands.

Hann er einnig kynntur sem „President of Yutong Eurobus Scandinavia”. Össur Skarphéðinsson lauk störfum sem utanríkisráðherra fyrir sjö árum síðan árið 2013. Tveir aðrir Íslendingar eru á tengiliðaskrá á vef fyrirtækisins auk tveggja Dana og tveggja Kínverja. Hinir Íslendingarnir eru Benedikt G. Guðmundsson hjá GT Group sem kynntur er sem „General Manager of North Europe” eða forstjóri Norður Evrópu og Kjartan Ólafsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem sagður er vera „Chairman of the board” eða stjórnarformaður. Hann er þó ekki stjórnarformaður í sænska félaginu þar sem Össur Skarphéðinsson hefur þá stöðu.


Greiddu skattgreiðendur fyrir söluherferð Yutong í Hörpu, þar sem mörgum væntanlegum viðskiptavinum var boðið til Íslands að kynna sér strætisvagna Yutong í Reykjavík?

Þegar haft er í huga að félagið sem um árabil hefur samkvæmt gögnum sem Útvarp Saga hefur undir höndum verið rekið með tapi vakna upp spurningar um hver hafi raunverulega staðið straum af söluherferð Yutong Eurobus ,þar sem fjölmörgum aðilum var boðið til Íslands, aðilum sem ætla má að hafi verið væntanlegir framtíðar viðskiptavinir Yutong Eurobus. Þar var öllu tjaldað til og rafvögnum meðal annars stillt upp fyrir framan Hörpu, sem vel að merkja hefur engin tengsl við fyrirtækið önnur en þau að vera nýtt sem nokkurs konar vörumerki Yutong Eurobus útávið með vitund og að því er virðist með fullu samþykki borgaryfirvalda, en Harpa er opinbert hlutafélag.

„Scandinavian office” í Svíþjóð

Í fyrri fréttum Útvarps Sögu um sænska fyrirtækið birti fréttavefur Útvarps Sögu mynd af húsinu á Mogatan 21 í Örebro en frá götunni sjást engin merki um að fyrirtækið Yutong Eurobus sé í húsinum, sem er fjölbýlishús. Aðkoman að höfuðstöðvum fyrirtækisins í Svíþjóð er því víðs fjarri þeim glæsileika á Íslandi sem hin meinta skrifstofa í Hörpu veitir. Hins vegar má sjá póstkassa með nafni fyrirtækisins ásamt fyrirtækinu Senson Reklam og nöfnum hjónanna Dan og Svetlönu Rasmussen við kjallaradyr hússins.

Á húsinu er einnig skilti með nafni Yutong Eurobus, mynd af rútum og höllinni í Örebro sem gæti gefið vísbendingu um væntanlega skrifstofu fyrirtækisins í Örebro ef tekst að koma í veg fyrir gjaldþrot. Dan Rasmussen sem á lögheimili á Mogatan 21 er kynntur á heimasíðu Yutong Eurobus sem „Marketing Director / Sales Manager” eða  markaðs- og sölustjóri fyrirtækisins.

Varamaðurinn í sambúð með Yutong Eurobus – Tjáir sig við Útvarp Sögu og segir Ísland vera eyðimörk

Lögheimili Dans er í sömu íbúð og „skrifstofa” Yutong eða Lgh 1201 sem er númer íbúðarinnar. Á heimasíðu Yutong eru þrjú símanúmer gefin upp til aðalskrifstofunnar í Svíþjóð, tvö þeirra eru bílasímar Dans og Svetlönu, eitt er símanúmer Senson Reklam sem einnig dvelur á lögheimili Dans. Þegar það fyrirtæki er skoðað finnst það ekki sem skráð hlutafélag í Svíþjóð en á ýmsum skráningarsíðum á netinu er gefin upp kennitala annars fyrirtækis í allt öðrum bransa og á allt öðrum stað í Örebro.


Dan Rasmussen sagði í samtali við fréttamann útvarps Sögu í Svíþjóð, að hann hefði tvisvar komið til Íslands sem að hans mati væri „eyðimörk” og honum langaði ekki aftur þangað. Sagði hann aðalbækistöðvar Yutong Eurobus vera í „óperuhúsinu í Reykjavík”. Spurður um 13,3 milljón sænskra krónu tap  ár 2018 sagði hann að „slíkt væri ekki óeðlilegt fyrir nýstofnað fyrirtæki”. Á Linkedin síðu Dans kemur hins vegar fram að Dan hóf störf hjá Yutong Eurobus Scandinavia árið 2010 og því er fyrirtækið ekki nýstofnað líkt og Dan Rasmussen heldur fram.

Aðalútibú Yutong Eurobus Sweden: póstkassi við kjallaradyr á Mogatan 21 í Örebro.
Kjallarainngangur er á hlið hússins sem ekki sést götumegin, þar sem aðalinngangur hússins er.

Engin ummerki um Yutong er að finna við aðalinngang hússins en skilti er við kjallarainnganginn og þar er póstkassi fyrir íbúana í íbúð númer 1201.Yutong hefur fyrirtækið á lögheimili þeirra hjóna Dan og Svetlöngu Rasmussen ásamt fyrirtækinu Senson Reklam.

Símanúmerin sem Yutong Eurobus í Svíþjóð gefur upp á heimasíðu sinni eru þrjú, farsímanúmer þeirra hjóna og svo símanúmer fyrirtækisins Senson Reklam. Företagsfakta sem heldur skrá yfir fyrirtæki í Svíþjóð segir kennitölu Senson Reklam vera þá sömu og gildir fyrir annað fyrirtæki í Örebro. Í opinberri fyrirtækjaskrá yfirvalda finnst ekkert hlutafélag með nafninu Senson reklam. Uppgefin heimasíða fyrirtækisins www.senson.se er ekki til og lénið á lausu.

Skilti við hlið hússins með nafni Yutong ásamt póstkassa er það eina sem finnst um starfsemi fyrirtækisins í Svíþjóð. Á skiltinu er mynd af höllinni í Örebro – Það vekur sérstaka athygli að fyrirtækinu Yutong Eurobus er mikið í mun að ímynd þess sé öll hin glæsilegasta þó sú ímynd sé mjög langt frá raunveruleikanum.

Opinberar byggingar notaðar sem leiktjöld fyrir Kínverska framleiðandann

Eftir að borgarfulltrúinn Baldur Borgþórsson velti upp spurningum á vefsvæði sínu um tengsl Össurar Skarphéðinssonar við Yutong Eurobus hefur komið í ljós eftir nánari úttekt Útvarps Sögu að Kínverska fyrirtækið Yutong gefur upp rangar upplýsingar um starfsmenn og umfang fyrirtækisins á Norðurlöndum og í Evrópu. Reykjavíkurborg er á þann hátt blandað inn á útrásarverkefni kínverska rafvagnaframleiðandans Yutong og hefur meðal annars haldið sölusýningu fyrir rafvagnaframleiðandann í Hörpu, þar sem væntanlegum kaupendum var boðið að koma og skoða strætisvagna sem Reykjavíkurborg hafði keypt af fyrirtækinu.

Ekki hefur verið gerð grein fyrir því hver stóð straum af þeim kostnaði sem leiddi af sölusýningunni og hvers vegna borgin heimilaði notkun Hörpunnar í sölu og ímyndarherferð Yutong Eurobus, og á þann hátt verið notuð sem leiktjöld fyrir kínverska rafvagnaframleiðandann. Þær spurningar hafa einnig vaknað hvort fyrirtækið muni koma að framleiðslu á vögnum fyrir fyrirhugaða borgarlínu, eða tengjast þeim framkvæmdum með einhverjum hætti og er þeim spurningum enn ósvarað.

Sjá: Rafvagnafyrirtæki kínverja í Svíþjóð sem Össur Skarphéðinsson er í forsvari fyrir er dæmigert „skúffufyrirtæki”

Sjá: Rafvagnavæðingin í samvinnu við Yutong mjög Samfylkingarmiðað verkefni

Athugasemdir

athugasemdir

Deila