Rafvagnafyrirtæki kínverja í Svíþjóð sem Össur Skarphéðinsson er í forsvari fyrir er dæmigert „skúffufyrirtæki” – Er tæknilega gjaldþrota samkvæmt neyðarreikningi 2018

Mogatan 21 í Örebro er opinbert póstfang Yutong Eurobus Scandinavia AB í Svíþjóð hjá einum leigjanda hússins.

Morgunblaðið segir frá umfangsmiklum umsvifum kínverska rútuframleiðandans Yutong og umboðsaðilum þess m.a. í fyrirtækinu Yutong Eurobus Scandinavia AB í Svíþjóð. Útvarp Saga fékk sænskan endurskoðanda til að kíkja á opinber gögn um fyrirtækið og sagði hann að ekki þyrfti sérfræðing til þess að sjá að sænska fyrirtækið er ekki alvörufyrirtæki heldur  „skúffufyrirtæki”.

Stjórnin samanstendur af þremur Íslendingum Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, Úlfari Björnssyni og Benedikt Guðmundssyni búsettum á Íslandi og að auki einum varamanni Dan Rasmussen.  Dan er skráður sem sérstakur móttakandi fyrir póstsamskipti við yfirvöld og býr á heimilisfanginu Mogatan 21 í Örebro sem er opinbert póstfang fyrirtækisins samkvæmt hitta.se. Húsnæðið lítur út eins og hver önnur venjuleg fjölbýlishús á svæðinu (sjá mynd) og 12 aðrir leigjendur eru í húsinu. Engin starfsemi fer fram á vegum fyrirtækisins í Svíþjóð, starfsemin felst einungis í póstmóttöku fyrir opinberan póst. 


Tap 2018 um 13,3 milljónir sænskar (198 milljónir ísl. kr.) – neyðarreikningar bókfærðir 

Allar opinberar upplýsingar um fyrirtækið vara við félaginu og birta tap þess 2018 í rauðu. Tvívegis á 4 ára tímabili hefur fyrirtækið þurft að fylgja fyrirmælum sænskra laga sem kveða á um að þegar hlutafé er ekki lengur fyrir hendi að þá þarf að setja þarf upp sérstakan neyðarjöfnunarreikning. Fyrirtækið er þá samkvæmt skilningi sænskra laga tæknilega gjaldþrota en fer ekki formlega í gjaldþrot nema lánadrottnar setji fram greiðslukröfur á fyrirtækið. Samanlagt tap fyrirtækisins á tímabilinu 2014 til 2018 nam um 16,6 milljónum sænskum króna. Opinber gögn ná til ársloka 2018 en ársskýrsla fyrirtækisins fyrir 2019 kemur síðar í ár. Útvarp Saga hefur undir höndum gögn um fjárreiður fyrirtækisins og byggir þessa umfjöllun meðal annars á þeim. 


Gekk brösuglega þegar Össur Skarphéðinsson kom inn sem stjórnarformaður – vissu ekki rétt nafn fyrirtækisins

Þegar Yutong Eurobus Scandinavia hugðist breyta skráningu fyrirtækisins gerðu yfirvöld hvorki meira né minna en 9 athugasemdir við þau gögn sem fyrirtækið sendi inn. Ein af athugasemdunum var að nafn fyrirtækisins var ekki rétt haft eftir samkvæmt opinberri fyrirtækjaskrá:

  1. Ljósrit af vegabréfi Össurar Skarphéðinssonar fyrrverandi utanríkisráðherra sýndi aðeins hluta síðunnar úr passanum 
  2. Ljósritið var óstaðfest
  3. Sænsk yfirvöld bentu á að upplýsingar á ljósriti þurfi að innihalda nafn, fæðingardag, gildistíma, undirskrift og mynd 
  4. Jafnframt bentu sænsk yfirvöld á að sá sem staðfestir ljósritið eigi að skrifa undir til staðfestingar. 
  5. Ekkert í þeim upplýsingum sem fyrirtækið sendi sænskum yfirvöldum upplýsti um kjör fundarritara eins og sænsk lög gera ráð fyrir í lögum um fundargerð ársfunda.
  6. Yfirvöld fóru fram á að fá nýtt staðfest ljósafrit af fundargerð ársfundarins 
  7. Í tilkynningu umsóknarinnar segir að Össur Skarphéðinsson hafi verið kosinn nýr stjórnarmeðlimur og skipaður formaður stjórnar. Hins vegar var ekkert sagt um að Benedikt Guðmundsson hafi hætt sem stjórnarformaður. Yfirvöld fóru fram á að fyrirtækið sendi inn nýja umsókn þar sem þetta atriði kæmi skýrt fram 
  8. Í fundargerðum bæði 15. mars og 21. júní 2018 vantar að Dan Aaby Rasmussen sé varamaður í stjórn. Yfirvöld fóru fram á ný staðfest ljósrit af fundargerðum þar sem þetta kemur fram. 
  9. Báðar tilkynningar fyrirtækisins innihéldu rangt fyrirtækjanafn. Það sama gildir um fundargerðina frá 15. mars. Yfirvöld fóru í kjölfarið fram á nýja umsókn með nýrri staðfestri fundargerð 15. mars.

Samkvæmt þessum upplýsingum virðist tilkynning um kjör Össurar Skarphéðinssonar í stjórn og stöðu stjórnarformanns fyrirtækisins hafi verið mjög áfátt og segir heimildarmaður Útvarps Sögu það óvenjulegt að fólk sem hefur einhverja reynslu af fyrirtækjarekstri setji upplýsingar fram á þennan hátt til opinbers stjórnvalds og sérstaklega veki það undrum að fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands sem ætla mætti hefði mikla reynslu kæmi þar nærri.

Hér má sjá yfirlit yfir ársreikninga fyrirtæksins yfir fjögurra ára tímabil þar sem sést að velta fyrirtækisins er lítil en tapið mjög mikið
Hér má sjá tap fyrirtækisins á árinu 2018
Hér má sjá staðfestingu ársreiknings fyrirtækisins fyrir árið 2018 undirraða af þremur stjórnarmönnum þess
Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila